Samvinna eftir skilnað - barnanna vegna (SES) er nýstárlegt stafrænt og gagnreynt námsefni sem hjálpar foreldrum að takast á við breytingar og áskoranir í kjölfar skilnaðar eða sambúðarslita. Markmiðið er að foreldrar fái verkfæri til að hjálpa sjálfum sér og börnunum á sem jákvæðastan hátt í gegnum skilnaðinn og að draga úr ágreiningi milli foreldra.
SES gengur út á að foreldrar sæki sér sjálf fræðslu og ráðgjöf á vefnum. Ferlið er þannig að foreldrar búa sér til aðgang að stafræna vettvangnum sér að kostnaðarlausu og fá um leið aðgang að 19 stafrænum námskeiðum. Fræðsluefni námskeiðanna er gagnreynt efni sem felur í sér kennsludæmi, verklegar æfingar og ígrundun um eigin líðan og hegðun. Fræðsluefnið veitir foreldrum verkfæri til að skoða sjálf sig og samvinnuna við hitt foreldrið með það markmið að hafa þarfir barnanna í fyrirrúmi.
SES er þróað af sérfræðingum við Kaupmannahafnarháskóla og byggir á gagnreyndu námsefni. Þýðing og staðfæring vefsins yfir á íslensku er unnin í samvinnu við mennta- og barnamálaráðuneytið, auk þess sem fjármögnum vefsins er alfarið á hendi þess ráðuneytis. Vefurinn er foreldrum að kostnaðarlausu en umsjónar- og ábyrgðaraðili SES á Íslandi er Gyða Hjartardóttir, félagsráðgjafi, aðjúnkt við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og Linda Sóley Birgisdóttir starfsmaður.